Dagur sagður ætla að hætta

Dagur Sigurðsson er sigursælasti þjálfari í sögu þýska karlalandsliðsins í …
Dagur Sigurðsson er sigursælasti þjálfari í sögu þýska karlalandsliðsins í handbolta. AFP

Dagur Sigurðsson mun nýta sér ákvæði í samningi sínum við þýska handknattleikssambandið og hætta sem þjálfari karlalandsliðs Þýskalands næsta sumar, ef marka má frétt tímaritsins Handball Inside.

Dagur er með samning um að stýra Þýskalandi út Ólympíuleikana 2020 en samningurinn er uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila næsta sumar. Ljóst er að þýska handknattleikssambandið, DHB, vill allt gera til að halda Degi, en hann gerði liðið óvænt að Evrópumeistara í janúar og stýrði því til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í ágúst.

Ekki skrýtið að Dagur sé eftirsóttur

Ekki kemur fram af hverju Dagur ætti að vilja hætta en samkvæmt heimildum Handball Inside var málið rætt á fundi DHB á sunnudaginn í Berlín.

Í yfirlýsingu frá DHB segir Bob Hanning, varaformaður, að sambandið sé að vinna í málinu og sé í viðræðum við Dag. „Það að Dagur sé einn eftirsóttasti þjálfarinn, eftir Evrópumeistaratitil og ólympíubronsverðlaun, kemur ekki á óvart. Við vitum hvað við fáum frá honum og hann veit hvað hann fær hjá DHB. Málið mun skýrast á næstu vikum,“ sagði Hanning. Vonast sé til þess að gengið verði frá samkomulagi um áframhaldandi samstarf, fyrir HM í Frakklandi í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert