„Hvernig í fjandanum náði ég þessu?“

Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH.
Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Elí Björgvinsson var flottur í marki FH í kvöld þegar lið hans sótti Akureyringa heim í Olís-deild karla. Varði hann stórvel, alls 14 skot, þar af tvö víti. Eitt skotið varði hann eftir að hafa verið útaf. Þá tapaði FH boltanum og Akureyringar gátu skorað í autt markið. Sveif þá ekki Ágúst Elí inn í teiginn og blakaði boltanum afturfyrir endamörk.

Sjá frétt mbl.is: Háspennuleikur Akureyrar og FH

Ágúst Elí var eins og allir félagar hans mjög svekktur með niðurstöðu leiksins en hann endaði 24:24 eftir að FH hafði verið yfir nánast allan leikinn. Hann hafði þetta að segja: „Það er mjög fúlt að hafa ekki unnið þennan leik. Hann var mjög erfiður fyrir okkur og Akureyringar voru grimmir. Mér fannst hins vegar við vera með þetta allan tímann. Það kom smá hikst hjá okkur á lokakaflanum en þá komu dómar sem voru ekki okkur hliðhollir. Mér fannst svo í restina að lokasóknin þeirra væri allt of löng og beið eftir að við fengjum boltann. Það var ekkert að gerast hjá þeim og við hefðum átt að fá séns í lokin til að klára þetta.

Okkur fannst dómararnir dálítið óútreiknanlegir og það var erfitt að lesa í línuna hjá þeim. Það hjálpaði ekki og mér fannst við fá að kenna dálítið vel á því í seinni hálfleiknum. Hins vegar er ekki því um að kenna að við náðum ekki sigri. Við hefðum átt að vera búnir að ganga frá leiknum fyrr og spila betri vörn. Þetta var bara hörku leikur og Akureyringarnir voru bara góðir og lögðu allt í leikinn. Það er alltaf gaman að koma hingað að spila en það er skemmtilegra að taka öll stigin.“

Sem fyrr segir átti Ágúst Elí flottar vörslur í leiknum en sendingar hans fram á Óðinn Þór Ríkharðsson vöktu einnig athygli en þær voru hárnákvæmar og skiluðu fjórum hraðaupphlaupsmörkum.

„Við Óðinn náum vel saman og ég á auðvelt með að finna hann. Hann er líka kominn fram fyrir andstæðingana og því betra að senda boltann á hann. Hann klúðrar líka mjög sjaldan. Það er mjög erfitt að spila gegn honum á æfingum og því er ég ánægður að hafa jhann með mér í liði.“

Svo þurfti að spyrja Ágúst Elí um flugmarkvörsluna og vítin. ,,Ég man nú ekkert eftir þessari vörslu þegar ég hljóp inn á völlinn. Það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig í fjandanum náði ég þessu? Svo var gott að taka þessi víti. Ég náði einhvern veginn að krafla í fyrra skotið frá Andra. Það leit ekki vel út fyrir hann þegar hann skaut í stöngina og framhjá en ég varði þetta víst“ sagði Ágúst Elí að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert