„Illa innstilltir og ólíkir sjálfum okkur“

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, ræðir við sína menn.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, ræðir við sína menn. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta var eiginlega alveg ótrúlegt, sérstaklega að horfa upp á fyrri hálfleikinn,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Selfyssingum í Olís-deild karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Selfoss skoraði 38 mörk gegn ÍBV

Selfyssingar unnu virkilega sannfærandi sigur, 38:32, þó að leikurinn hafi verið mjög kaflaskiptur. Selfoss vann ÍBV sömuleiðis í bikarkeppninni síðastliðinn sunnudag.

„Ég veit ekki hvernig á að útskýra þetta. Auðvitað voru gríðarleg vonbrigði að falla úr út bikarnum hérna á sunnudaginn og ég held að menn hafi bara ekki verið búnir að jafna sig á því. Við mættum illa innstilltir og ólíkir sjálfum okkur. Ég var að vona að menn myndu svara sunnudeginum hérna í dag. Við ætluðum okkur alla leið í bikarnum og það má vel vera að menn séu í sárum, en mér finnst það svolítið ódýr afsökun,“ sagði Arnar.

„Við fengum á okkur tuttugu mörk í fyrri hálfleik sem er algjör katastrófa. Reyndar komum við ágætlega inn í seinni hálfleikinn og jöfnum metin, 32:32, þegar fimm mínútur voru eftir. Þá fengum við á okkur sex mörk í röð og mikið af þeim úr hraðaupphlaupum eftir að hafa rétt boltann upp í hendurnar á þeim,“ sagði Arnar ennfremur, en þetta var þriðja tap ÍBV í deildinni í röð.

„Við þurfum að fara í smá stöðutékk og kanna hlutina. Það er ekki hægt að benda á Stephen Nielsen, Sindra Haralds eða Róbert Aron. Þó að þeir séu ekki með í kvöld þá erum við með fullt af flottum handboltamönnum og við eigum að gera betur frá þetta,“ sagði Arnar og bætti við að varnarleikur liðsins yrði tekinn til sérstakrar skoðunar.

„Við fengum fína markvörslu í seinni hálfleik í dag, en áttum í erfiðleikum í fyrri hálfleik sérstaklega af því að vörnin var lek. Ég þarf líka að fá meira frá lykilmönnum. Mönnum eins og Agnari Smára, Sigurbergi og Kára Kristjáni. Þetta eru lykilmenn í okkar liði og ég þarf bara meira frá þeim,“ sagði Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert