Varð fyrir miklum vonbrigðum

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, ræðir við sína menn í leiknum …
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, ræðir við sína menn í leiknum í Framhúsinu í kvöld. mbl.is/Eggert

„Frammistaðan var ekki nógu góð, ég varð fyrir miklum vonbrigðum með mína menn í kvöld. Við náðum aldrei takti varnarlega. Vörnin var léleg og það er erfitt að segja hvað veldur. Við vorum hvorki góðir í vörn né sókn,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 31:27 tap sinna manna gegn Fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. 

Sjá frétt mbl.is: Sannfærandi sigur Fram á Stjörnunni

Hann segist ánægður með tímabilið hingað til en úrslitin og frammistaðan í kvöld hafi verið skref í vitlausa átt.

„Fram að þessum leik vorum við búnir að tapa á móti ÍBV, Aftureldingu og Haukum og að mínu mati búnir að gera vel. Þetta er afturför í dag en ég er ekki óánægður með byrjunina á mótinu nema kannski tvo leiki. Þennan og gegn ÍBV. Það var slæmt hugarfar hjá okkur í dag.“

Einar er nýkominn til baka úr leikbanni sem hann fékk fyrir ummæli um dómara leiksins. Hann er ánægður með að vera kominn til baka þó úrslitin hafi vissulega skemmt fyrir. „Það er klárlega betra að vera á hliðarlínunni en ekki gaman þegar frammistaðan er svona.“

Einar er segir landsleikjapásuna sem framundan er koma á góðum tíma fyrir sitt lið. 

„Það er að koma landsliðspása sem er kærkomin pása fyrir okkur og við munum reyna að endurstilla okkur og hlaða batteríin. Við munum koma ferskir til leiks eftir pásuna, þá byrjar ný umferð,“ sagði Einar Jónsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert