Ókurteisi að verja Hönnu ekki betur

Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss.
Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss. Patricia Szölösi sækir að marki Selfoss

„Þetta var hundfúlt. Þetta er annar leikurinn í vetur þar sem við töpum fyrir þeim, en þær vinna okkur ekki,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, eftir 25:30 tap gegn Gróttu á heimavelli í Olís-deild kvenna í handbolta í dag.

Þetta var annað tap Selfoss gegn Gróttu í deildinni í vetur en liðin eru að berjast í neðstu sætum deildarinnar. Rándýr stig fyrir Selfyssinga að tapa.

„Þetta er þyngra en tárum taki. Við erum búin að tapa fjórum stigum í vetur á móti liði sem við eigum að vinna. Þú getur rétt ímyndað þér hversu súrt þetta er. Þessi vetur snýst allur um smáatriði og við erum búin að klikka núna tvisvar í leik þar sem við eigum að fá stig en fáum ekki, þökk sé okkar eigin frammistöðu en ekki andstæðingsins,“ sagði Sebastian í samtali við mbl.is.

Staðan í hálfleik var 14:14 og jafnt á öllum tölum í seinni hálfleik þangað til staðan var 25:25 og fimm mínútur eftir. Þá skoraði Grótta fimm mörk í röð og Selfoss átti ekkert svar. Hvað var í gangi, Basti?

„Við missum Adinu [Ghidoarca] út af meidda, Dijana [Radojevic] meiddist líka og Kristrún [Steinþórsdóttir] spilaði allan leikinn nánast á annarri löppinni. Það eru engar afsakanir en auðvitað hefur það áhrif,“ sagði Sebastian og bætti við að besti leikmaður Selfoss, landsliðskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, hefði fengið sérlega óblíðar viðtökur hjá Gróttuvörninni í dag.

„Ef ég á að vera alveg fullkomlega hreinskilinn þá finnst mér bara ókurteisi hvernig dómarar í deildinni eru farnir að leyfa brot á Hönnu. Hún er rifin niður aftan frá, hún er slegin og henni er hrint. Mér finnst það í raun og veru ókurteisi að besti leikmaður deildarinnar sé ekki varinn betur en þetta, bara með hagsmuni íslenska handboltans í huga,“ sagði Sebastian að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert