Mega tapa með sex mörkum

Karen Knútsdóttir og samherjar í landsliði Íslands standa vel að …
Karen Knútsdóttir og samherjar í landsliði Íslands standa vel að vígi. mbl.is/Styrmir Kári

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik stendur afar vel að vígi í baráttunni um sæti í umspili heimsmeistaramótsins fyrir leikinn gegn Makedóníu í lokaumferð undanriðilsins í Þórshöfn í Færeyjum á morgun.

Makedónía steinlá fyrir Austurríki, 19:28, í seinni leik kvöldsins en Ísland vann Færeyjar í fyrri leiknum, 24:16, eins og áður hefur komið fram.

Ísland er með 4 stig, Austurríki 2, Makedónía 2 en Færeyjar ekkert stig fyrir lokaumferðina. Tvö efstu liðin fara í umspilið.

Fyrri leikurinn á morgun er Ísland - Makedónía klukkan 16. Makedónía þarf að vinna leikinn með sjö marka mun til að komast upp fyrir Ísland í innbyrðis viðureignum Íslands, Austurríkis og Makedóníu. Það ræður úrslitum ef liðin þrjú enda öll jöfn með 4 stig.

Ísland vann Austurríki 28:24 í gær og er því með fjögur mörk í plús en Makedónía er með níu í mínus eftir skellinn í kvöld. Makedónía þarf því sjö marka sigur til að komast upp fyrir Ísland.

Austurríki er öruggt áfram með því að vinna Færeyjar í seinni leiknum, sama hvernig fer hjá Íslandi og Makedóníu.

Tapi íslenska liðið með sjö mörkum eða meira gegn Makedóníu þarf það að treysta á að Færeyingar taki stig af Austurríki í seinni leiknum annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert