Níu mörk Snorra í Íslendingaslag

Snorri Steinn Guðjónsson er markahæstur í Frakklandi.
Snorri Steinn Guðjónsson er markahæstur í Frakklandi. Ljósmynd/Foto Olimpik

Snorri Steinn Guðjónsson er sem fyrr markahæsti leikmaður frönsku 1. deildarinnar í handknattleik og hann bætti enn við í kvöld þegar hann skoraði 9 mörk í Íslendingaslag þegar Nimes sótti Cesson Rennes heim.

Mörk Snorra dugðu þó ekki til sigurs þótt Nimes hafi verið með góða forystu undir lokin, 24:21, því heimamenn í Cesson Rennes jöfnuðu metin í 24:24 í lokin.

Snorri hefur nú skorað alls 77 mörk í deildinni í vetur, átta mörkum meira en Uwe Gensheimer, þýski hornamaðurinn hjá París SG.

Guðmundur Helgason skoraði tvö mörk fyrir Cesson Rennes og Geir Guðmundsson eitt en Ragnar Óskarsson er aðstoðarþjálfari liðsins. Ásgeir Örn Hallgrímsson lék ekki með Nimes vegna meiðsla.

Nimes er í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig eftir 11 leiki en Cesson Rennes er með 9 stig í níunda sætinu.

Íslenski markvörðurinn Stephen Nielsen mátti þola tap á heimavelli með liði sínu Aix, sem beið lægri hlut fyrir Saran, 27:30. Stephen kom ekkert inn á að þessu sinni en Aix er í 7. sæti með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert