Andlaust og lélegt

Anton Rúnarsson og félagar í Val náðu sér engan veginn …
Anton Rúnarsson og félagar í Val náðu sér engan veginn á strik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var andlaust og lélegt og Framararnir verðskulduðu þetta,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfara Vals, eftir 30:23-tapið gegn Fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

„Framarar börðust eins og ljón allir og það var stemmning hjá þeim, en við komum illa undirbúnir í þennan leik og náðum aldrei að gíra okkur upp í eitt eða neitt, sama hvað við reyndum og gerðum. Ég hafði alltaf á tilfinningunni að við gætum tekið þetta en svo misstum við muninn í 4-5 mörk á slæmum kafla og þetta fór eins og það fór,“ sagði Óskar Bjarni. Hann sá ekki mikla ástæðu til að hrósa einhverjum sinna lærisveina að þessu sinni. Athygli vakti að hægri skytta og hornamaður liðsins skoruðu samtals eitt mark í leiknum, og það kom í blálok leiksins.

Framararnir með gott lið

„Það voru ekki margir góðir hjá okkur og við [þjálfararnir] í sjálfu sér ekki heldur. Hægri vængurinn var daufur hjá okkur en við klikkuðum líka á vítum og dauðafærum, auk þess sem fráköst féllu í þeirra hendur. Í þau skipti sem við spiluðum vörn þá féll boltinn samt til þeirra. En þetta var bara ekki nógu gott, og enginn okkar manna var nógu góður,“ sagði Óskar Bjarni, hálfundrandi á frammistöðunni.

„Já, sérstaklega þar sem við spiluðum bikarleik á sunnudag þar sem við vorum ömurlegir. Þá kannski gerum við mistök þegar við ætlum að gíra okkur upp í alvöruleik núna, en það þarf að hafa fyrir þessu og þegar við gerum það erum við góðir. Framararnir eru með gott lið þegar þeir eru svona, margir góðir og með lausnir við flestu því sem við gerðum í kvöld.“

Hef ekki rætt þetta við Anton

Anton Rúnarsson, leikstjórnandi Vals og markahæsti leikmaður liðsins í vetur, sagðist í viðtali við Morgunblaðið í vikunni vilja fá tækifæri í íslenska landsliðinu. Óskar Bjarni er aðstoðarþjálfari landsliðsins en hvað fannst honum um ummæli Antons?

„Ég hef nú ekki rætt þetta við Anton og veit ekki nákvæmlega hvað hann sagði, en það er náttúrulega þannig að við stefnum á að vera með B-landslið og það er klárt mál að þá fáum við að sjá þessa leikmenn. Við höfum verið að fá marga leikmenn heim úr atvinnumennsku, eins og Ólaf Gústafsson, Anton, Sigurberg Sveinsson og Róbert Aron Hostert, sem er jákvætt fyrir deildina. Þá verða þeir sýnilegri fyrir B-landsliðið, en þeir væru í þýsku 2. deildinni, og ég held að Anton hafi aðallega verið að meina það. Ég var ekkert að kippa mér upp við þetta. Ég er bara ánægður ef að leikmenn stefna á A-landsliðið en ég held að hann hafi aðallega verið að tala um að hann yrði sýnilegri hérna heima og ég er bara ánægður með það og fagna því að deildin sé að verða sterkari. Það er bara jákvætt,“ sagði Óskar Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert