Allt í lagi að tala um það núna

Orri Freyr Gíslason með skot en Magnús Stefánsson fylgist með, …
Orri Freyr Gíslason með skot en Magnús Stefánsson fylgist með, í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Ófeigur

„Mér fannst þetta alltaf vera við það að smella, en það gerði það ekki í dag. Mér fannst við samt flottir í leiknum, sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, eftir 28:24-tapið gegn Val í Olís-deildinni í handbolta í kvöld.

Með tapinu missti ÍBV af tækifærinu til að spila í deildabikarnum á milli jóla og nýárs, og því verður næsti leikur liðsins ekki fyrr en í byrjun febrúar.

„Þetta var fyrst og fremst sénsinn á að komast í 3. sætið í deildinni. Þetta snýst um að safna stigum og við vorum mættir hingað til þess, burtséð frá því hvert það hefði leitt okkur,“ sagði Magnús, aðspurður um hve meðvitaðir Eyjamenn hefðu verið um möguleikann á að komast í deildabikarinn. Hann segir vissulega gott að geta nú hvílt skrokkinn, eftir erfiða törn í vetur.

Get ekki lýst því hvað þetta er góður tímapunktur

„Ég get bara ekki lýst því hvað þetta er góður tímapunktur til að fara í pásu, sérstaklega fyrir okkur gömlu skrokkana í liðinu. Það er þétt leikið, mikið álag og stífar æfingar, og það er vissulega kærkomið að fá þessa pásu núna. Svo hefst alvaran aftur eftir áramót, leikmenn fara að skríða saman, bæði hjá okkur og öðrum liðum, og þá fara línurnar að skýrast,“ sagði Magnús.

Eyjamenn voru án hornamannsins Theodórs Sigurbjörnssonar í kvöld vegna meiðsla, og fyrir voru á meiðslalistanum lykilmenn eins og Róbert Aron Hostert og Sindri Haraldsson. Þá fór markvörðurinn Stephen Nielsen til Frakklands þegar mótið var að hefjast.

„Vissulega eru þetta stór skörð og það er kannski í lagi að tala um það núna, þó að við höfum ekki verið að tala um það í allan vetur eins og sum lið. Vissulega söknum við Robba, Sindra, Tedda, Stephen og fleiri. En við gerum það besta með þann mannskap sem við höfum í hverjum leik fyrir sig, og mér fannst þeir sem spiluðu í dag leysa sitt hlutverk vel af hólmi,“ sagði Magnús.

Magnús Stefánsson á ferðinni í leik gegn Akureyri í vetur. …
Magnús Stefánsson á ferðinni í leik gegn Akureyri í vetur. Ætla má að hann hafi verið að senda Akureyringum pillu, í viðtalinu. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert