Jafntefli og Ísland í 16-liða úrslit

Íslenska landsliðið gerði jafntefli við landslið Makedóníu, 27:27, í lokaleik liðanna í B-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Metz. Jafnteflið dugir íslenska landsliðinu til þess að ná fjórða sætinu í riðlinum og komast í 16-liða úrslit. Þar mætir íslenska liðið heimsmeisturum Frakka í Lille á laugardaginn kl. 17.

Staðan í hálfleik var 15:13, Íslandi í vil. 

Leikmenn íslenska landsliðsins spiluðu hinsvegar illa úr stöðunni sem kom upp í síðari hálfleik. Þeir byrjuðu síðari hálfleik afar vel og náðu fimm marka forskoti, 23:18, eftir 13 mínútur í síðari hálfleik. Allt virtist í blóma. Þá seig á ógæfuhliðina. Leikmenn íslenska liðsins urðu ragir og fáir vildu taka af skarið. Áræðnin var ekki fyrir hendi. 

Arnór Atlason kom Íslandi í þriggja marka forystu, 25:22, á 52. mínútu en þá voru liðnar átta mínútur frá síðasta marki íslenska liðsins. Makedóníumenn héldu áfram að saxa á forskotið. Sóknarleikur íslenska liðsins varð bitlausari og um skeið leit út fyrir að enginn vildi taka af skarið. 

Filip Taleski kom Makedóníu yfir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, 27:26. Rúnar Kárason jafnaði metin þegar hálf önnur mínúta var eftir. Makedóníumenn sneru þá vörn í sókn en misstu boltann þegar 50 sekúndur voru til leiksloka. Íslenska liðið hóf sókn en skot Rúnars þegar 15 sekúndur voru til leiksloka var varið. Makedóníumenn fengu boltann en gerðu sig ekki líklega til þess að sækja að marki íslenska liðsins á þeim sekúndum sem voru eftir af leiknum.  

Varnarleikur íslenska landsliðsins var góður í þessum leik. Sóknarleikurinn gekk einnig vel í 45 mínútur. 

Rúnar Kárason var markahæstur með sjö mörk. Bjarki Már Elísson var næst markahæstur með sex mörk, öll í síðari hálfleik. Hann átti fínan leik eins og Rúnar sem fór á kostum í fyrri hálfleik. 

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Ísland 27:27 Makedónía opna loka
60. mín. Kiril Kolev (Makedónía) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert