Ástrós mikið efni og hana vantar ekki metnaðinn

Ástrós Anna Bender hefur öðlast mikla reynslu í marki Vals …
Ástrós Anna Bender hefur öðlast mikla reynslu í marki Vals í vetur. mbl.is/Ófeigur

Ástrós Anna Bender, hinn ungi markvörður Vals, fór á kostum í sigri Vals á Haukum, 25:17, í 12. umferð Olís-deildarinnar í Valshöllinni á fimmtudagskvöldið. Hún varði 22 skot, þar af tvö vítaköst.

Ástrós Anna kom til Vals sumarið 2015 frá HK. Hún var varamarkvörður fyrir Berglindi Írisi Hansdóttir á síðasta vetri og fékk einstaka tækifæri sem hún nýtti vel, m.a. í leik gegn ÍBV í Valshöllinni. Til stóð að Ástrós yrði í sama hlutverki á þessu keppnistímabili en af því varð ekki þar sem Berglind Íris hefur ekkert leikið með Val og Ástrós Anna því þurft að taka stöðu aðalmarkvarðar e.t.v. fyrr en reiknað var með en hún er aðeins 18 ára gömul.

„Það býr mikið efni í markvörð í henni,“ sagði hin leikreynda Kristín Guðmundsdóttir, samherji Ástrósar. „Það býr mikið í henni. Ástrós hefur mikinn metnað og hefur unnið hörðum höndum við að komast í betra og betra form. Hún hefur mikið keppnisskap og ekki vantar áhugann. Ástrós æfði mikið með Berglindi á síðustu leiktíð og lærði mikið af henni. Í vetur kom síðan stóra stökkið, það er að verða aðalmarkvörður Vals. Stökkið var svolítið stórt en hún hefur haft nóg að gera. Ástrós átti fyrst og fremst að leika með ungmennaliðinu í 1. deild og 3. flokki,“ sagði Kristín.

Nánar er fjallað um Ástrós Önnu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert