Hrafnhildur skoraði 13 mörk í sigri Selfoss

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór á kostum gegn Haukum.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór á kostum gegn Haukum. mbl.is/Golli

Sel­foss vann Hauka, 28:25, í fyrsta leik 13. um­ferðar Olís-deild­ar kvenna í hand­knatt­leik þegar liðin mætt­ust fyr­ir aust­an fjall í kvöld. 

Selfoss spilaði við Fylki fyrir þremur dögum síðan á meðan Haukar fengu mun lengri hvíld milli leikja, en þær spiluðu síðast á fimmtudaginn í síðustu viku, gegn Val. Leikurinn í kvöld litaðist nokkuð af þessu, Selfoss byrjaði af miklum krafti en fljótlega í fyrri hálfleik fjaraði undan leik liðsins og með þreytunni fór mistökunum að fjölga.

Þrátt fyrir það tókst Haukum ekki að refsa Selfyssingum fyrir mistökin. Selfoss tapaði átta boltum á síðustu fimmtán mínútunum í fyrri hálfleik en höfðu samt fimm marka forskot þegar fimm mínútur voru til hálfleiks, 13:8. Haukar klóruðu í bakkann fyrir hlé og munurinn var þrjú mörk í hálfleik, 14:11.

Haukar byrjuðu betur í seinni hálfleik og eftir rúmlega tíu mínútur voru þær komnar einu marki yfir, 17:18. Sex marka sveifla í bakið á Selfyssingum sem héldu þó haus og náðu að komast yfir aftur. Selfoss leiddi með einu til tveimur mörkum lengst af en Haukar jöfnuðu 21:21 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir.

Þrátt fyrir þreytumerki fyrr í leiknum náðu Selfyssingar að safna kröftum fyrir frábærar lokamínútur. Katrín Ósk Magnúsdóttir kom aftur inn í markið og varði vel á mikilvægum augnablikum, meðal annars vítakast, og Haukar skoruðu aðeins tvö mörk á síðustu sjö mínútum leiksins. Verðskuldaður sigur hjá Selfyssingum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var nánast óstöðvandi í kvöld. Hún skoraði þrettán mörk, þar af átta af vítalínunni úr níu tilraunum. Eitt fór í stöng. Fimm mörk frá henni úr opnum leik þrátt fyrir að vera tekin úr umferð á löngum köflum í seinni hálfleik. Perla Ruth Albertsdóttir stóð sig líka vel, skoraði fimm mörk og var hörð í horn að taka í vörninni.

Haukasóknirnar voru ekki burðugar fyrr en Karen Helga Díönudóttir kom til skjalanna. Hún skoraði öll sín fjögur mörk í seinni hálfleik og bætti sóknarleik liðsins til muna. Um leið steig Ramune Pekarskyte upp og raðaði inn sjö mörkum eftir mjög rólega byrjun. Besti maður Hauka var hins vegar Elín Jóna Þorsteinsdóttir sem varði átján skot í markinu og klukkaði boltann reglulega allan leikinn.

Sel­foss hef­ur nú jafnað Gróttu að stig­um, bæði lið hafa 8 stig en Sel­foss er áfram í 7. sæt­inu. Hauk­ar eru í 4. sæti með 12 stig og hafa tapað báðum leikj­um sín­um gegn Sel­fyss­ing­um í vet­ur.

Selfoss 28:25 Haukar opna loka
60. mín. Selfoss tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert