Nenni ekki að tjá mig um dómgæslu

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var vitaskuld ekki sérlega ánægður eftir 26:18 tap sinna manna gegn Valsmönnum í 8-liða úrslitum Coca-cola bikarsins í handbolta í kvöld. Hann var sammála að lið Stjörnunnar var ólíkt sjálfu sér í kvöld. 

„Miðað við síðustu leiki þá vorum við það að ákveðnu leyti. Valsaranir voru líka góðir, þeir spiluðu frábæra vörn og fengu markvörslu. Þegar við komumst í gegnum vörnina, voru markmennirnir að þvælast fyrir okkur. Það vantaði eitthvað smá upp á að við gætum gert eitthvað almennilegt í dag."

„Sóknarleikurinn var stirður á köflum og svo hefði ég viljað sjá okkur nýta dauðafærin betur. Við fórum oft mjög illa með góð færi og það endanlega drepur okkur."

Stjarnan hefur farið vel af stað í deildinni eftir áramót og unnið báða leiki sína fram að þessu. Einar er samt sem áður svekktur að vera úr leik í bikarnum. 

„Það er hundfúlt að vera búinn í þessari bikarkeppni, við ætluðum okkur meira og stærra svo við grátum þetta í kvöld og svo heldur lífið áfram."

Ari Magnús Þorgeirsson fékk að líta rauða spjaldið í seinni hálfleik og vildi Einar ekki mikið tjá sig um það. 

„Ef dómarinn dæmdi það, þá hlýtur það að vera hárrétt, ég nenni ekki að tjá mig um dómgæslu," sagði Einar Jónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert