Zoran og Sebastian reknir úr starfi

Sebastian Alexandersson þjálfar ekki lengur Selfoss.
Sebastian Alexandersson þjálfar ekki lengur Selfoss.

Handknattleiksdeild Selfoss sagði í dag þeim Zoran Ivic og Sebastian Alexanderssyni upp störfum sem þjálfurum kvennaliðs félagsins í handknattleik. 

Í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag kemur fram að uppsögnin taki þegar gildi og er þeim á sama tíma þakkað fyrir ágæt störf sín fyrir félagið en þeir hafa þjálfað liðið frá vordögum 2016. 

Þeir Grímur Hergeirsson, aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins, og Árni Steinn Steinþórsson, leikmaður karlaliðsins, taka við liðinu.

Selfoss féll á dögunum úr leik í undanúrslitum bikarsins en liðið hefur aðeins 8 stig í sjöunda og næstneðsta sæti Olís-deildar kvenna og er fimm stigum frá öruggu sæti.

Athugasemd frá mbl.is:
Orðið „ágæt" var með gæsalöppum í upphaflegu fréttinni. Þannig var þetta ekki sett upp í fréttatilkynningunni frá handknattleiksdeild Selfoss og beðist er velvirðingar á þessari breytingu. Mbl.is harmar þann misskilning sem hún olli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert