„Svekkjandi“

Óskar Bjarni Óskarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson. Eva Björk Ægisdóttir

Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari Vals í Olís-deild karla, þurfti að horfa upp á þriðja tap Vals í röð í deildinni í dag. Akureyringar fengu Val norður og unnu 22:20 eftir æsilegan leik þar sem ýmis vafamál komu upp. Mikil rekistefna var á lokamínútunni þegar búið var að dæma Val boltann en Akureyringar tóku leikhlé á sama tíma og fengu því að halda boltanum.

Óskar Bjarni sagði þetta: „Þetta var bara hörkuleikur og allt gat gerst. Við virtumst vera að sigla aðeins fram úr og vorum komnir tveimur mörkum yfir en þeir gáfu allt í þetta og náðu okkur, því miður. Varðandi leikhléið sem þeir fengu á lokamínútunni eftir að búið var að flauta af þeim boltann þá get ég ekkert sagt um það. Ég sé ekkert hvenær þeir tóku leikhléið en þetta var vissulega svekkjandi. Það er alltaf gaman að koma hingað norður, okkur hefur gengið vel hérna en í dag var það ekki þannig, því miður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert