Þjálfara Vals sagt upp

Alfreð Örn Finnsson hefur stýrt Valsliðinu í síðasta sinn.
Alfreð Örn Finnsson hefur stýrt Valsliðinu í síðasta sinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfreð Erni Finnssyni hefur verið sagt upp starfi þjálfara kvennaliðs Vals eftir tveggja ára veru. Þetta kemur fram í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals. Sigurlaug Rúnarsdóttir og Berglind Íris Hansdóttir stýra Valsliðinu út keppnistímabilið. 

Valsliðinu hefur vegnað illa síðustu vikurnar og aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum. Liðið situr í sjötta sæti deildarinnar með 16 stig og er aðeins tveimur stigum á eftir liðinu í þriðja sæti. Afar hörð keppni stendur yfir á milli Hauka, ÍBV, Gróttu og Vals um sæti í fjögurra liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Fram og Stjarnan eiga þegar sæti víst í þeirri keppni. Þrjár umferðir eru eftir keppni í Olís-deild kvenna.

Alfreð Örn er þriðji þjálfarinn í Olís-deild kvenna sem er látinn taka pokann sinn á þessu keppnistímabili. Skömmu eftir áramót var Haraldi Þorvarðarsyni sagt upp hjá Fylki og fyrir um þremur vikum öxluðu Sebastian Alexandersson og Zoran Ivic sín skinn á Selfossi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert