Aldrei farið í eitthvert kjaftæði

Stefán Árnason, þjálfari Selfyssinga.
Stefán Árnason, þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, var gríðarlega ánægður með 25:24 sigurinn á Stjörnunni í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Selfoss var fjórum mörkum yfir þegar korter lifði leiks, en með góðum kafla í lokin tryggðu þeir sér góðan sigur. 

„Þetta leit ekki allt of vel út, við vorum 21:17 undir þegar það er korter eftir. Þá breytum við um vörn sem gerði útslagið. Þeir náðu að leysa 3-2-1 vörnina okkar sem var frábær fyrstu 25 mínúturnar. Vörnin okkar og markvarsla var virkilega góð í restina, Einar Ólafur kom vel í markið.“

„Sóknarleikurinn var svo útsjónasamur og lausnamiðaður, það skilaði okkur sigri. Það var mikil þrá og vilji í minum mönnum, líka þegar við vorum fjórum mörkum undir. Ég sagði við strákana að við myndum vinna leikinn ef við héldum áfram allar 60 mínúturnar og ekki gefast upp.“

Selfyssingar eru langt komnir með að tryggja sæti sitt í deildinni á næsta tímabili. 

„Þetta var upp á líf og dauða, þetta skiptir okkur öllu máli. Við erum búnir að eiga þægilegan vetur og við vorum ekki í neinni fallbaráttu. Við vorum um miðja deild og allt í einu lendum við á vegg, töpum fullt af leikjum í röð og þar á meðal illa á móti Fram. Þá sáum við að við vorum í bullandi fallbaráttu. Síðan þá höfum við tekið fimm af tíu stigum og fjórir leikjanna af fimm hafa verið virkilega góðir. 

„Strákarnir sem eru að bera upp liðið eru margir 18-20 ára, við höfum aldrei misst hausinn eða farið í eitthvert kjaftæði. Við höfum alltaf verið á flottu róli.“

Selfoss var með boltann þegar tæp mínúta var eftir, en Stjarnan náði honum nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Andri Hjartar Grétarsson kom boltanum í netið, en það var of seint þar sem leikurinn var búinn. 

„Við köstum boltanum aðeins frá okkur, við hefðum getað endað sóknina betur, sem betur fer var tíminn ekki nægilega mikill fyrir þá til að jafna,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert