Verðum að laga varnarleikinn

Ernir Hrafn Arnarson var markahæstur í liði Aftureldingar með 9 …
Ernir Hrafn Arnarson var markahæstur í liði Aftureldingar með 9 mörk en það dugði skammt gegn FH-ingum. mbl.is/Eggert

„Þetta er búið að vera þungt hjá okkur eftir áramótin og við verðum að finna lausn á því,“ sagði Ernir Hrafn Arnarson, leikmaður Aftureldingar, við mbl.is eftir ósigurinn gegn FH í Olís-deild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

„Við vorum vel inni í leiknum í fyrri hálfleiknum en við misstum FH-inga of langt frá okkur í byrjun seinni hálfleiks og vorum að elta þá eftir það. Við fórum að taka erfið skot en það er samt fyrst og fremst varnarleikurinn sem við þurfum að taka í gegn hjá okkur.

Ég hef engar áhyggjur af sókninni. Við finnum yfirleitt alltaf lausnir í sókninni. Vörnin hefur verið að klikka hjá okkur og nú þurfum við bara svo gjöra svo vel að taka okkur á í henni og markvörslunni, gefa í og enda deildarkeppnina vel áður en úrslitakeppnin fer af stað,“ sagði Ernir Hrafn sem var besti maður Mosfellinga í kvöld en hann skoraði 9 mörk í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert