Fram hafði betur í fallbaráttuslagnum

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og félagar hans hjá Fram unnu mikilvægan …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og félagar hans hjá Fram unnu mikilvægan sigur gegn Akureyri í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Akureyri og Fram börðust á banaspjótum í miklum fallbaráttuslag í 25. umferð Olísdeildar karla í handbolta í KA-heimilinu á Akureyri í dag. Svo fór að Fram marði eins marks sigur, 27:26.

Akureyringar voru einu skrefi á undan lengstum í fyrri hálfleik. Leikmenn Akureyrar virtust vel stemmdir og spiluðu hraðar og skemmtilegar sóknir. Framarar treystu aðallega á óútreiknanleg skot Arnars Birkis Hálfdánssonar sem var í miklu stuði.

Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleiknum var staðan 12:9 Akureyri í vil, en þá komust Framarar í gang og jöfnuðu fyrir hlé.

Aftur komust Akureyringar þremur mörkum yfir í seinni hálfleik, en Akureyri komst í 19:16 um miðbik seinni hálfleik og staðan vænleg fyrir heimamenn áður en lokaspretturinn gekk í garð.

Fram lokaði þá vörn sinni og tók leikinn í sínar hendur. Akureyringar náðu að klóra í bakkann á lokasprettinum, en dugði hins vegar ekki til að hirða stigin af gestunum úr Safamýrinni.

Bestu menn Framara voru markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson, skyttan Arnar Birkir og svo Þorsteinn Gauti Hjálmarsson sem var baneitraður í seinni hálfleiknum.

Tveir menn stóðu aftur á móti uppúr hjá Akureyringum. Fyrirliðinn Andri Snær Stefánsson var öruggur á vítalínunni og skoraði tíu mörk. Mindaugas Dumcius var svo öflugur í sókninni. Dumcius skoraði sjálfur sjö mörk og fiskaði annað eins af vítum.

Fram hefur 20 stig eftir þennan sigur, en liðið skaust liðið upp fyrir Stjörnuna sem hefur 19 stig í næstneðsta sæti deildarinnar og upp í áttunda sætið með þessum sigri. Akureyringar eru í afar slæmum málum eftir þetta tap, en liðið situr á botni deildarinnar með 17 stig.

Akureyri á eftir að mæta ÍBV og Stjörnunni. Stjarnan mætir Gróttu áður en liðið fær Akureyri í heimsókn í lokaumferðinni. Fram leikur við Aftureldingu og Gróttu í lokaumferðum deildarinnar.

Akureyri 26:27 Fram opna loka
60. mín. Tomas Olason (Akureyri) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert