„Maður nötrar ennþá“

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Helgi Pálsson var svo sannarlega glaður en nokkuð spenntur eftir að hans menn í Fram höfðu unnið Akureyri með eins marks mun í dag í Olísdeild karla í handbolta í dag. Sigur Fram var lífsnauðsynlegur í fallbaráttunni og fer langt með að halda þeim í deildinni.

Þetta var frábær sigur hjá ykkur.

„Algjörlega stórkostlegur, maður nötrar ennþá og er að átta sig á þessu. Við gerðum þetta óþarflega spennandi í blálokin. Þetta var bara hörkuleikur á móti hörkuliði. Bæði lið hafa verið að spila vel og taka sigra upp á síðkastið. Mér fannst þetta ekki vera eins og botnslagur.“

Akureyringar voru að síga framúr þegar þið tókuð leikhlé sem breytti öllu.

„Við breyttum vörninni okkar og hún small algjörlega eftir þetta. Hún var alveg búin að vera ágæt en síðasta hluta leiksins var hún bara frábær. Þegar þeir komu inn með sjöunda manninn í sóknina þá þurftum við að vera hreyfanlegri og eftir það þá náðum við að loka vel á þá.“

Þannig að það voru Akureyringar sem komu ykkur í gang með þessu herbragði sínu.

„Ég segi það nú ekki en jú, jú, þetta kveikti einhvern neista hjá okkur.“

Lykilmenn Framliðinu eru afar ungir, það eru markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson og skytturnar Arnar Birkir Hálfdánsson og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson.

„Viktor Gísli er sextán ára, verður sautján í júlí. Arnar Birkir er 23 ára ásamt öðrum leikmanni og svo er Þorsteinn nýkominn upp úr 2. flokki. Þetta er rosalega ungt lið og gaman að þjálfa það.“

Það reiknuðu ekki margir með því að þið gætuð spjarað ykkur í deildinni.

„Það er alveg rétt. Við misstum marga leikmenn, jafnvel rétt fyrir mót og þurftum að smala í lið. Svo erum við með mikið af heimaöldum strákum. Það þurfti bara að byggja á þeim. Ég legg mikla áherslu á það að hafa gaman og ég segi strákunum að þeir séu ekki bara að spila fyrir sjálfa sig heldur fyrir félagið.“

Þið eruð ekki alveg sloppnir við fall þrátt fyrir tvo sigra í röð.

 „Nei, þetta er ekki búið. Það er allt opið og það geta allir unnið alla. Þetta er yfirleitt spurning um hugarfar, hvernig menn mæta til leiks. Það er allt hægt og nóg eftir,“ sagði Guðmundur Helgi að skilnaði, greinilega afar stoltur af piltunum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert