Naumur sigur Stjörnunnar

Helena Rut Örvarsdóttir sækir að vörn ÍBV.
Helena Rut Örvarsdóttir sækir að vörn ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan sigraði ÍBV með eins marks mun, 24:23, þegar liðin áttust við í Vestmanneyjum í dag í Olísdeild kvenna í handknattleik. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir heimakonur sem eru í harðri baráttu við Gróttu um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Nú eru þær í slæmri stöðu og þurfa helst að vinna Hauka í næsta leik.

ÍBV byrjaði leikinn betur en varnir beggja liða voru frábærar í fyrri hálfleik. Einungis eitt mark var skorað á fyrstu fimm mínútnum í dag og höfðu liðin einungis skorað fjögur eftir 13 mínútur. Þegar leið á fyrri hálfleik fengu liðin auðveldari mörk og þá oftast góðri vörn að þakka.

Hafdís Renötudóttir og Erla Rós Sigmarsdóttir áttu góðan leik framan af en Erla varði átta skot og Hafdís ellefu í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfleik sýndu Stjörnustelpur úr hverju þær eru gerðar og yfirspiluðu heimakonur. Munurinn var orðinn þrjú mörk og gestirnir í góðum málum áður en ÍBV kom með mjög góðan kafla. Liðinu tókst af minnka muninn niður í eitt mark í nokkur skipti og jöfnuðu síðan leikinn þegar þrjár mínútur voru eftir. 

Þá misstu Eyjakonur mann af velli og brekkan því stór sem liðið þurfti að komast yfir. Stjörnukonur komust yfir en ÍBV jafnaði metin þegar innan við mínúta var eftir. Halldór Harri Kristjánsson tók þá leikhlé og stillti upp í síðustu sókn liðsins. Helena Rut Örvarsdóttir skoraði þá sitt sjötta mark og ÍBV því í slæmri stöðu þegar Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari liðsins tók leikhlé, með 19 sekúndur eftir á klukkunni.

Liðinu tókst ekki að skora og tóku Stjörnustúlkur því stigin tvö. Leikmenn ÍBV voru skildir eftir í molum og þurfa að hafa sig allar við ef þær vilja komast í úrslitakeppnina. 

ÍBV 23:24 Stjarnan opna loka
60. mín. Stjarnan tekur leikhlé 41 sekúnda eftir þegar Harri tekur leikhlé.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert