Þetta er grátlegt

Hrafnhildur Skúladóttir (til hægri)
Hrafnhildur Skúladóttir (til hægri) mbl.is/Ófeigur Lýðsson

ÍBV mistókst að styrkja stöðu sína í 4. sæti Olís-deildar kvenna í dag þegar Stjörnustúlkur komu í heimsókn. ÍBV var sterkari aðilinn framan af en gestirnir náðu góðum kafla um miðbik síðari hálfleiks sem gerði ÍBV erfitt fyrir.

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir gaf sér nokkrar mínútur í það að spjalla við mbl.is eftir leik en hún var mjög leið með úrslit leiksins.

„Ég er mjög svekkt og það er klárt mál að við þurftum þessi stig mjög mikið. Við erum búnar að negla okkur upp við vegg og þurfum að klára þessa tvo síðustu ef við ætlum í úrslitakeppni, en það er alveg hægt.“

Vörn liðsins var frábær í fyrri hálfleik en hún virtist slaka aðeins á í seinni hálfleik, hefur Hrafnhildur einhverjar skýringar á því?

„Það er nákvæmlega það sem við erum að ergja okkur yfir, það er skelfilegt að vörnin hafi dottið svona niður í þessar 10-12 mínútur þar sem að mörk sem, vorum ekki að sjá í fyrri hálfleik leka inn. Allt í einu er línumaðurinn orðinn frír, eða einhver smá hornainnleysing og þær labba í gegn. Það koma svona fjögur fimm gefins mörk, þar sem við nennum ekki að spila vörn. Það er það sem fer með okkur í dag.“

Það hefur verið erfitt að elta leikinn eftir að hafa lent þremur mörkum undir.

„Þetta var ógeðslega mikilvægur kafli og kafli sem fer með leikinn hjá okkur. Vörnin í fyrri hálfleik var frábær og markvarslan með, við erum með tvo eða þrjá bolta varða í seinni hálfleik sem er vegna þess að þegar vörnin dettur niður fylgir markvarslan líka.“

Liðið sýnir þó í lokin að mikill karakter er í því þar sem liðið kemur sér í stöðu til þess að fá eitthvað út úr leiknum.

„Þetta er grátlegt en ég hugsa að þetta eina stig hefði kannski ekki hjálpað okkur. Við þurfum alltaf að vinna tvo síðustu.“

Núna er liðið komið með tvo úrslitaleiki, ef sigrar vinnast í síðustu tveimur leikjunum fer liðið í úrslitakeppnina.

„Við horfum á það nákvæmlega þannig, við getum ennþá gert þetta sjálfar og þurfum ekki að treysta á neina aðra,“ sagði Hrafnhildur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert