Við lentum í krísu

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan sótti tvö stig til Vestmannaeyja í æsispennandi leik í dag. Leikurinn var í járnum þangað til um miðjan síðari hálfleik þegar Stjörnustúlkur tóku á rás. Leikmenn ÍBV náðu þó að koma sér aftur inn í leikinn og jöfnuðu metin þegar tæp mínúta var eftir.  Helena Rut Örvarsdóttir gerði þá síðasta mark leiksins og skildi leikmenn ÍBV eftir í sárum.

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar var sáttur í leikslok þegar mbl.is ræddi við hann.

„Ég er alltaf ánægður að fá sigur hérna, þetta er erfiður heimavöllur í Vestmannaeyjum og ég er ánægður með karakterinn og vinnsluna í dag.“

„Við lentum í krísu sóknarlega í fyrri hálfleik og náðum ekki upp þessum rythma sem við viljum vera í. Við töluðum saman í hálfleik og unnum úr því í seinni hálfleik, ég er með margar stelpur sem áttu flottan leik eða innkomu í dag.“

Bæði lið spiluðu frábærar varnir í fyrri hálfleik en það slakaði aðeins á vörn heimakvenna í seinni hálfleik á meðan vörn Stjörnunnar hélt út.

„Við viljum vinna í góðri vörn og þar vinnast leikirnir. Við viljum fókusera á það og verða betri og betri. Þetta er líka spurning um að finna réttu lausnirnar og mér fannst við gera það ágætlega í dag.“

Lið Harra var ekki langt frá því að klúðra niður nánast unnum leik í dag, var hann orðinn stressaður?

„Það virðist vera alltaf, sama hvort þú ert kominn með unninn leik eða ekki að þessir leikir milli ÍBV og Stjörnunnar virðast alltaf jafnast út í lokin og þá kemur smá stress. Á meðan við klárum leikina þá er það í lagi.“

Stemningin í Eyjum var fín og nokkuð vel mætt miðað við laugardagsleik, hvað fannst Harra um mætinguna í Eyjum?

„Það er frábært að sjá að Eyjamenn komi hér í mars á laugardegi, þetta er æðislegt og svona viljum við hafa þetta.“

ÍBV gæti misst af úrslitakeppninni og stig í dag hefði verið gríðarlega dýrmætt fyrir liðið.

„Allir þessir leikir sem eru eftir hjá ÍBV, eins og hjá mörgum liðum í deildinni, skipta rosalega miklu máli. Þær eiga tvo leiki eftir gegn Haukum og Gróttu og þær eiga alveg séns á að komast í úrslitakeppnina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert