Afar spennandi verkefni fram undan

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. Eggert Jóhannesson

„Nú erum við komnir á þann stað sem við viljum vera á og fram undan er afar spennandi nágrannaslagur þar sem toppsætið gæti verið í húfi. Það vilja öll liðin sem eru á toppi deildarinnar verða deildarmeistarar og vonandi að við endum efstir, það er alla vega markmiðið,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, en lið hans komst upp að hlið ÍBV og Hauka á toppi Olísdeildar karla í handbolta með 28:20-sigri gegn Gróttu í dag.  

„Það var klárlega frábær varnarleikur og góð markvarsla hjá Ágústi Elí [Björgvinssyni] þar fyrir aftan sem lagði grunninn að þessum sigri. Við náðum að spila þéttan varnarleik mestan hlutann af leiknum og það skóp þennan sigur,“ sagði Halldór Jóhann.

„Við vorum einnig mjög skynsamir í sóknarleiknum og fundum í flestum tilfellum góð færi. Það var þolinmæði og góð boltahreyfing sem varð til þess að við náðum að opna vörnina þeirra trekk í trekk,“ sagði Halldór Jóhann enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert