„Gerðum dýr mistök á lokakaflanum“

Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals.
Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var hörkugóður og flottur karakter í okkur í dag. Þetta var mikill baráttuleikur en féll ekki okkar megin, smá mistök í lokin en ég er ánægður með strákana.“ Þetta sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir naumt tap gegn Selfossi á útivelli í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 29:28.

„Þetta er jafn leikur og þá munar um hverja vörslu eða eitt dauðafæri sem fer forgörðum.

Bæði lið voru að reyna að keyra á tempói og þannig hafa leikirnir á milli þessara liða verið í vetur. Hraði og mikil barátta,“ sagði Guðlaugur enn fremur.

Valur hafði frumkvæðið lengst af í leiknum og leiddi með þremur mörkum þegar tæpar 12 mínútur voru eftir, 20:23. Selfyssingar skoruðu þá fjögur mörk í röð og lögðu grunninn að sigrinum.

„Við misstum boltann auðveldlega á lokakaflanum og hleypum Selfyssingunum inn í leikinn. Þeir náðu að hlaupa af krafti í bakið á okkur og nýttu nokkrar hraðar sóknir mjög vel. Þeir minnkuðu forskotið okkar hratt niður á þessum kafla þar sem við gerum mistök og förum illa með dauðafæri. Í svona leik þar sem bæði lið reyna að keyra hratt og refsa í bakið þá eru hver mistök svo dýr. Og við gerðum dýr mistök á lokakaflanum,“ sagði Guðlaugur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert