„Skil ekki af hverju handbolti er ekki vinsælli“

Einar Rafn brýst í gegnum vörn Hauka.
Einar Rafn brýst í gegnum vörn Hauka. mbl.is/Árni Sæberg

„Við eigum einn leik eftir og hann verður að vinnast líka. Þetta var frábær leikur í kvöld og góð auglýsing fyrir handboltann. Við gerðum allt sem við ætluðum okkur að gera í þessum leik og vissum að það myndi skila okkur sigri,“ sagði örþreyttur Einar Rafn Eiðsson eftir sætan sigur FH gegn Haukum í kvöld, 30:28.

Fín stemmning var á Ásvöllum og Einari leiðist ekki að spila í svoleiðis aðstæðum.

„Ég skil ekki af hverju þetta er ekki vinsælli íþrótt. Það er langskemmtilegast að horfa á og spila handbolta. Þetta verður ekki mikið betra og ekki skemmir fyrir að vinna leikinn.“

Varnarleikur FH náði ekki alveg sama flugi og undanfarnar vikur en hin hávaxna króatíska skytta Hauka, Ivan Ivkovic, reyndist FH-ingum afar erfiður í fyrri hálfleik en þá skoraði Ivkovic sjö mörk.

„Við breyttum í 3-2-1 vörn þegar um korter var eftir. Við vorum samt að spila góða vörn en hann [Ivkovic] var að taka skotin á einhverjum 10 metrum. Markmennirnir hefðu vinsamlegast mátt taka fleiri bolta en fjandinn hafi það, við breyttum aðeins og það virkaði. Það má ekki horfa fram hjá því að við vorum líka klókir fram á við og gáfum þeim ekki þessi fyrsta-tempo hraðupphlaup sem þeir eru þekktir fyrir.“

FH nægir jafntefli í lokaleiknum gegn Selfossi, til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarétt í allri úrslitakeppninni. Samkvæmt töflunni ætti FH að klára það verkefni en Einar segir liðið ekki geta leyft sér vanmat.

„Við þurfum ekkert að spá í hvaða lið er næst. Við mætum tilbúnir í þann leik og verðum bara að vinna,“ sagði Einar Rafn sem skoraði sex mörk gegn uppeldisfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert