Ég er með stóra sokkaskúffu heima

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var að sjálfsögðu mjög ánægður með 26:25 sigur sinna manna gegn Gróttu í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, en leikurinn fór fram á Seltjarnarnesi. Fram tryggði sér 6. sæti deildarinnar og sæti í átta liða úrslitum með sigrinum. 

„Þetta var frábært í alla staði, við komum hérna til að ná í tvö stig, það var ekki um annað að ræða og það datt okkar megin í dag. Við erum búnir að tapa allt of mörgum með einu og loksins unnum við með einu.“

Bjartur Guðmundsson skoraði sigurmarkið fyrir Fram, tíu sekúndum fyrir leikslok. 

„Ég var mjög stressaður, en svona á handboltinn að vera. Þetta var yndislegt, fullt hús af fólki, góð stemning. Það var fullt af klaufamistökum í þessum leik enda spennustigið hátt, en þetta er góð auglýsing fyrir handboltann og vonandi það sem koma skal í átta liða úrslitum.“

„Við breyttum hlutum í leikhléinu, við vissum að vörnin myndi fara á skytturnar okkar svo það losnaði um Bjart. Bjartur var ekki búinn að skora mikið, svo við gerðum ráð fyrir að þeir kæmu út, sem þeir svo gerðu.“

Viktor Gísli Hallgrímsson, markmaður Fram, náði sér ekki á strik í leiknum og var þá kallað á Daníel Þór Guðmundsson. Daníel stóð sig mjög vel. 

„Vikor náði sér ekki á strik í dag, spennustigið var mjög hátt og hann er 16 ára pjakkur. Þá kom Danni inn og náði fullt af góðum boltum. Það lagði grunninn á því að við fórum að saxa á eftir að þeir voru þrem mörkum yfir. Við þurftum það frá honum.“

Þráinn Orri Jónsson, leikmaður Gróttu, og Andri Þór Helgason, leikmaður Fram, fengu báðir beint rautt spjald í leiknum. Guðmundur segir báða dóma hafa verið rétta, Þráinn fékk rautt fyrir að fara í andlitið á Elíasi Bóassyni og Andri fauk út af fyrir brot á Finni Inga Stefánssyni. 

„Þetta lítur mjög illa út, en ég trúi ekki á nokkurn mann að brjóta svona af sér. Hann kýlir hann í andlitið, það er rautt spjald en þetta var óviljaverk. Það er enginn að fara að drepa neinn í þessum bolta. Þeir missa sinn besta varnarmann út af og það tekur tíma fyrir þá að jafna sig.“

„Það er það sama, hann skilur höndina eftir úti og hann fer í hann. Þetta var bara rautt spjald, ekki spurning. Ég þekki Andra hins vegar það vel að hann reyndi ekki að meiða neinn. Bæði brotin voru óviljaverk.“

Fram mætir Haukum í 8-liða úrslitunum. 

„Það er mjög gaman að spila á móti Gunna [Gunnari Magnússyni] og félögum. Það hafa alltaf verið hörkuleikir og við ætlum að gíra okkur upp og berjast fyrir öllu. Það hafa verið skemmtilegir leikir hjá okkur hingað til og fullt af mörkum. Átta liða úrslit eru hins vegar öðruvísi, það fer allt annað í gang og þá fyrst reynir á liðin.“

Flestir spáðu Fram mjög slæmu gengi fyrir mót, Guðmundur viðurkennir að það sé gott að afsanna þær spár. 

„Ég er með stóra sokkaskúffu heima og margir fá sokk. Það voru allir sem spáðu okkur lóðrétt niður en við ætluðum að sýna og sanna að það væri allt hægt í handbolta,“ sagði hann léttur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert