Mikil vonbrigði

Sigurgleði Stjörnukvenna var ósvikin og hér fagna þær stuðningsmönnum í …
Sigurgleði Stjörnukvenna var ósvikin og hér fagna þær stuðningsmönnum í leikslok eftir sigurinn á Fram og sigur í Olís-deildinni í handbolta. mbl.is/Golli

„Þetta er mikil vonbrigði að vinna ekki þennan bikar því að mínu mati er þetta flottasti titilinn auk þess sem við höfum verið í forystu í deildinni frá í fyrstu umferð,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Fram í handbolta, eftir að lið hans tapaði fyrir Stjörnunni, 27:21, í lokaleik Olís-deildar kvenna og sá á eftir deildarmeistarabikarnum í hendur Stjörnuliðsins á markamun. 

„Við byrjuðum leikinn afleitlega auk þess sem varnarleikurinn var slakur hjá okkur. Vörnin fór ekki í gang fyrr en stundarfjórðungur var til leiksloka. Vörnin er okkar aðalsmerki. Þrátt fyrir allt þá fengum við möguleika á að minnka muninn og vinna deildarmeistaratitilinn á markatölu en því miður þá tókst ekki að nýta þá möguleika sem gáfust. Stjarnan var einfaldlega betra liðið í þessum leik og vann fyrir vikið,“ sagði Stefán sem var afar vonsvikinn með niðurstöðuna og einnig hvernig lið hans byrjaði leikinn en það var á hælunum lengi framan af gegn baráttuglöðu Stjörnuliði. Þá náði Stjarnan upp því forskoti sem liðið hélt meira og minna til leiksloka. 

„Það var ljóst að leikmenn Stjörnunnar langaði meira að vinna þennan titil. Í úrslitaleik sem þessum þá verða leikmenn að vera tilbúnir í slaginn frá fyrstu mínútu. Þar lá meðal annars munurinn á liðunum að þessu sinni,“ sagði Stefán en svipað henti Fram-liðið í úrslitaleik bikarkeppninnar í loka febrúar, einmitt gegn Stjörnunni.  Stefán sagði að þá staðreynd verði að skoða fyrir úrslitakeppnina sem hefst eftir páska en í henni mætir Fram liði Hauka í undanúrslitum.

„Mitt lið verður að leika betur en það gerði að þessu sinni til þess að Stjarnan verði ekki Íslandsmeistari. Það er ljóst,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert