Öruggur Valssigur í fyrsta leik

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson stekkur inn að marki Vals í kvöld …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson stekkur inn að marki Vals í kvöld en Ýmir Örn Gíslason horfir á eftir honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valsmenn fóru vel af stað í undanúrslitarimmu sinni við Fram á Íslandsmótinu í handknattleik karla í kvöld. Þeir unnu með átta marka mun á heimavelli Framara, 31:23, eftir að hafa verið með þriggja marka forskot í hálfleik, 15:13.

Valur var með örugga forystu frá fyrstu mínútu. Þeir voru tilbúnir í slaginn en Framarar ekki. Þeir síðarnefndu verða að laga margt í leik sínum fyrir næsta leik. Næsti leikur liðanna verður eftir viku á Hlíðarenda vegna þess að um helgina eiga Valsarar leik í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu.

Það tók leikmenn Framara 20 mínútur að átta sig almennilega á að leikurinn væri hafinn. Valsmenn léku framliggjandi vörn sína af miklum ákafa svo sóknarleikur Framara var meira og minna í handaskolum. Valur skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins áður en fyrsta mark Fram var skorað. Eftir 20 mínútur var staðan orðin 12:5 fyrir Val eftir að hafa verið 10:3 yfir skömmu áður. Helmingur marka Vals fyrstu 20 mínúturnar var gerður eftir hraðaupphlaup. 

Leikmenn Fram lögðu ekki árar í bát. Þeir sneru á Valsmenn með því að færa vörn sína framar. Þar með riðlaðist sóknarleikur Vals verulega og Fram fékk hröð upphlaup og tókst að saxa á forskot Vals áður en hálfleikurinn var úti. Þá var munurinn orðinn þrjú mörk, 15:12, eftir að hafa verið minnstur tvö mörk. Spennandi síðari hálfleikur var í uppsiglingu ef Fram-liðinu tækist að fylgja síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks eftir.

Framarar náðu ekki að fylgja eftir góðum lokakafla í fyrri hálfleik í upphafi þess síðari. Valsmenn voru komnir með sjö marka forskot, 20:13, eftir aðeins fimm mínútur. Um miðjan hálfleikinn var munurinn sex mörk, 22:16, Val í vil. Fyrst og fremst var það sóknarleikurinn sem bilaði hjá Fram, bæði fóru leikmenn illa að ráði sínu í uppstilltum leik eða í hraðaupphlaupum þar sem sendingar biluðu eða að markskot voru ómarkviss.

Þegar réttar fimm mínútur voru til leiksloka kom Sveinn Aron Sveinsson Val sjö mörkum yfir, 27:20. Þar með var endanlega ljóst hvoru megin sigurinn félli.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fram 23:31 Valur opna loka
60. mín. Ýmir Örn Gíslason (Valur) fékk 2 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert