„Lífsnauðsynlegur sigur“

Helena Rut Örvarsdóttir skoraði 8 mörk fyrir Stjörnuna í dag.
Helena Rut Örvarsdóttir skoraði 8 mörk fyrir Stjörnuna í dag. mbl.is/Golli

„Þetta var heldur betur lífsnauðsynlegur sigur hjá okkur eftir að hafa tapað fyrsta leiknum á heimavelli,“ sagði stórskyttan Helena Rut Örvarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, við mbl.is eftir sigur Stjörnunnar gegn Gróttu, 25:22, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handknattleik á Seltjarnarnesi í dag.

„Þetta var mjög góður sigur hjá okkur og við þurftum á honum að halda. Við höfðum undirtökin í leiknum nær allan tímann en það má aldrei slaka neitt á móti Gróttu. Við misstum aðeins dampinn á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik og eins á kafla í seinni hálfleik en okkur tókst sem betur fer að landa sigri,“ sagði Helena sem eins og í fyrsta leiknum var markahæsti leikmaður Stjörnunnar en hún skoraði 8 mörk í leiknum.

„Ég held að ég hafi farið í oddaleiki í öllum þeim rimmum sem ég hef tekið þátt í og það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta færi í fimm leiki. En nú stefnum við bara á að vinna næsta leik sem er í Garðabænum. Við ætlum okkur ekki að tapa öðrum leiknum í röð á heimavelli,“ sagði Helena Rut við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert