ÍR-ingar á leið upp í úrvalsdeildina

ÍR-ingar fagna eftir sigurinn í kvöld.
ÍR-ingar fagna eftir sigurinn í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR-ingar tryggðu sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik, að því gefnu að fjölgað verði í deildinni, eftir sigur á Þrótti, 32:19, í oddaleik liðanna í Austurbergi.

Allt stefnir í að fjölgað verði í Olís-deildinni úr 10 liðum í 12 en það skýrist endanlega 9. maí. Fjölnir vann sigur í 1. deildinni og hefur tryggt sér sæti í deild þeirra bestu á næstu leiktíð og KR og ÍR fylgja Fjölnismönnum upp verði fjölgað.

Daníel Ingi Guðmundsson skoraði 8 mörk fyrir ÍR, Aron Örn Ægisson og Eggert Sveinn Jóhannsson voru með 5 mörk hvor og þeir Halldór Ingi Árnason, Davíð Georgsson og Jón Kristinn Björgvinsson skoruðu 3 mörk hver.

Styrmir Sigurðarson var markahæstur í liði Þróttara með 5 mörk, Aron Jóhannsson skoraði 4 og Jón Hjálmarsson 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert