Segja Stefán hafa glatað trausti leikmanna

Stefán Árnason.
Stefán Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleiksdeild Selfoss hefur sent frá sér tilkynningu sem staðfestir frétt mbl.is í síðustu viku að Stefán Árnason mun ekki halda áfram með karlalið félagsins á næsta tímabili eftir tveggja ára starf.

Stefán sagði sjálfur í samtali við mbl.is að stjórnin hafi viljað fá „stærra nafn“ til þess að stýra liðinu, en í tilkynningu Selfyssinga í dag segir að Stefán hafi ekki lengur fullt traust innan leikmannahópsins.

Stjórnin segir að þess vegna hafi verið ákveðið að leita að nýjum þjálfara, til þess að tryggja áframhaldandi veru leikmanna hjá Selfossi.

Tilkynninguna má sjá í heild hér að neðan.

Handknattleiksdeild Selfoss hefur ákveðið að gera ekki nýjan samning við Stefán Árnason sem þjálfað hefur meistaraflokk karla hjá félaginu undanfarin tvö ár en samningur hans rennur út í lok næsta mánaðar. Stefáni eru þökkuð góð störf fyrir félagið og óskar stjórn honum velfarnaðar í því sem hann mun taka sér fyrir hendur.

Fyrir liggur að Stefán nýtur ekki lengur fulls trausts innan leikmannahóps Selfoss. Því hefur stjórn handknattleiksdeildarinnar ákveðið að leita að nýjum þjálfara fyrir meistaraflokk karla þannig að hægt sé að tryggja áframhaldandi veru leikmanna hjá handknattleiksdeild Selfoss sem og áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

Stjórn handknattleiksdeildar Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert