Alfreð er ástæða þess að ég valdi Kiel

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/Jonas Guettler

Slóvenski landsliðsmaðurinn Miha Zarabec, sem gengur til liðs við stórlið Kiel í sumar, fer fögrum orðum um þjálfarann Alfreð Gíslason.

„Ég hlakka til að vinna með Alfreð Gíslasyni. Hann veit allt um handbolta; þekkir alla leikmenn, öll leikskipulög og hefur lagt grunninn fyrir marga unga leikmenn. Ég get lært mikið af honum og hann er stór ástæða fyrir því að ég fer til Kiel,“ sagði Zarabec á heimasíðu félagsins.

Zarabec er 25 ára gamall og kemur til Kiel frá Celje Lasko í heimalandinu. Hann var í liði Slóvena sem vann til bronsverðlauna á HM í Frakklandi í sum­ar. Hann skoraði 4 mörk í 26:25 sigri Slóvena á Íslend­ing­um í riðlakeppn­inni á HM.

Athygli vekur einnig að á heimasíðu Kiel er leitað til stuðningsmanna liðsins að hafa augun opin eftir íbúð fyrir kappann í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert