Ólafur og Arnar meiddust fyrir úrslitaleikinn

Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad.
Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad. Ljósmynd/IFK Kristianstad

Landsliðsmennirnir Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson meiddust báðir á æfingu með sænska handknattleiksliðinu Kristianstad í vikunni en á morgun mætast Kristianstad og Alingsås HK í hreinum úrslitaleik um sænska meistaratitilinn í Malmö Arena.

Ólafur, sem er fyrirliði Kristianstad og lykilmaður í liðinu, fékk olnbogaskot í andlitið á æfingu í fyrradag og í gær fékk línumaðurinn sterki Arnar Freyr högg á lærið á æfingu og þurfti að hætta.

En góðu fréttirnar í dag eru þær að Ólafur og Arnar verða klárir í slaginn í úrslitaleikinn en þetta er þriðja árið í röð sem Kristianstad og Alingsås leika til úrslita. Kristianstad er ríkjandi meistari en þriðji Íslendingurinn í herbúðum liðsins er landsliðsmaðurinn Gunnar Steinn Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert