Var orðið heitt undir feldinum

Sverre Andreas Jakobsson.
Sverre Andreas Jakobsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var lengi undir feldinum og mér var orðið heitt,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson í gamansömum tón við Morgunblaðið í gær eftir að ljóst varð að hann heldur áfram að þjálfa lið Akureyrar handboltafélags í 1. deild karla á næstu leiktíð í Íslandsmótinu.

Sem kunnugt er þá sleit KA samstarfinu um Akureyrarliðið fyrr í þessum mánuði eftir að það féll úr Olís-deildinni. Sverre hafði m.a. verið orðaður við þjálfarastarf hjá uppeldisfélagi sínu KA.

„Ég velti ýmsum þáttum þessa máls fyrir mér en upp úr stóð að ég var og er samningsbundinn Akureyri handboltafélagi. Þann samning vil ég virða og halda áfram minni vinnu fyrir félagið úr því að gagnkvæmur vilji var til þess,“ sagði Sverre sem hefur þjálfað Akureyrarliðið tvö undangengin keppnistímabil og á stundum einnig þurft að hlaupa í skarðið sem leikmaður.

„Vissulega hefur landslagið í kringum liðið tekið breytingum frá síðasta keppnistímabili. Staðreyndin er engu að síður sú að félagið er ennþá fyrir hendi. Þess vegna fannst mér ég ekki geta hlaupið í burtu frá mínum samningi á þessum tímapunkti.“

Ingimundur Ingimundarson verður Sverre til halds og trausts eins áður auk þess sem Þorvaldur Sigurðsson verður í þjálfarateymi liðsins. Sverre og Ingimundur þekkjast vel enda voru þeir kjölfestan í varnarleik íslenska landsliðsins um nokkurra ára skeið.

„Við ætlum að leggja línurnar saman fyrir næsta keppnistímabil,“ sagði Sverre sem var ánægður með að þjálfarateymið verði óbreytt.

Sjá allt viðtalið við Sverri í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert