Sterkt að verða sænskur meistari þrjú ár í röð

Ólafur Andrés Guðmundsson.
Ólafur Andrés Guðmundsson. AFP

„Þetta var virkilega sætt og sterkt hjá okkur að verða meistarar þriðja árið í röð,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem varð sænskur meistari með liði sínu Kristianstad á laugardaginn.

Með liðinu leika einnig Gunnar Steinn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson. Kristianstad lagði Alingås 31:25 í úrslitaleiknum þar sem Ólafur gerði 4 mörk og Gunnar Steinn tvö.

Ólafur er fyrirliði liðsins og það kom því í hans hlut að taka við bikarnum. „Það var mjög gaman að fá að fara fyrir þessu liði enda er mikill áhugi á handbolta í bænum og allir fylgjast vel með. Við lékum í höllinni í Malmö þar sem Eurovision var haldin á sínum tíma og það voru um 13.000 áhorfendur og langflestir á okkar bandi, fólk fylgdi okkur í leikinn,“ sagði Ólafur.

Liðið kom síðan til síns heima í gær og þá mætti múgur og margmenni í Tívolígarðinn þar sem tekið var á móti liðinu og hafði Ólafur í nógu að snúast og þurfti bæði að láta mynda sig og veita eiginhandaráritanir á meðan Morgunblaðið ræddi við hann. „Það var rosalega vel tekið á móti okkur í dag þegar við komum heim og það verður örugglega fagnað hér fram eftir kvöldi og jafnvel næstu daga,“ sagði Ólafur.

Sjá allt viðtalið við Ólaf í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert