Guðjón og Alexander þýskir meistarar

Guðjón Valur Sigurðsson heldur áfram að raða inn titlum.
Guðjón Valur Sigurðsson heldur áfram að raða inn titlum. Ljósmynd/rhein-neckar-loewen.de

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson urðu í kvöld Þýskalandsmeistarar í handbolta með Rhein-Neckar Löwen, með stórsigri á lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Kiel, 28:19, þó að enn séu tvær umferðir eftir af deildinni. Guðjón skoraði fimm marka Löwen í kvöld og Alexander þrjú.

Flensburg er í 2. sæti en liðið tapaði á útivelli gegn Göppingen fyrr í kvöld og því er munurinn á Löwen og Flensburg fimm stig, en aðeins fjögur stig eftir í pottinum fyrir Flensburg.

Guðjón Valur hefur þar með orðið landsmeistari sex ár í röð, í þremur mismunandi löndum. Hann varð Danmerkurmeistari með AG Köbenhavn árið 2012, þýskur meistari með Kiel 2013 og 2014, spænskur meistari með Barcelona 2015 og 2016, og svo þýskur meistari á ný í ár.

Alexander hefur verið á mála hjá Löwen frá árinu 2012 og varð einnig Þýskalandsmeistari með liðinu í fyrra, þá með Stefán Rafn Sigurmannsson sem liðsfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert