Aron leikur ekki til úrslita

Aron Pálmarsson sækir að Dönunum Mikkel Hansen og Henrik Möllergard …
Aron Pálmarsson sækir að Dönunum Mikkel Hansen og Henrik Möllergard í undanúrslitaleiknum í dag. AFP

Paris SG leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik gegn annaðhvort Vardar eða Barcelona. Aron Pálmarsson og félagar máttu bíta í það súra epli að tapa með eins marks mun, 27:26, fyrir Paris SG í undanúrslitaleik í Lanxess Arena í Köln í dag í hörkuleik þar sem franska liðið var með yfirhöndina frá upphafi. Veszprém fékk kjörið tækifæri til að jafna metin í lokin en tókst ekki.

Parísarliðið var með yfirhöndina í fyrri hálfleik og náði mest fjögurra marka forystu, 7:4, um miðjan hálfleikinn. Sóknarleikur Veszprém gekk vel þangað til kom að því að skora úr opnu færi. Þá gekk á ýmsu, annaðhvort hafnaði boltinn í markstöngunum eða í markverðinum Thierry Omeyer. Þegar á leið var nokkuð um misheppnaðar sóknir hjá Parísarliðinu sem átti í nokkrum vandræðum gegn öflugri vörn Veszprém. Tvö góð mörk frá Matai Lekai undir lok fyrri hálfleiks glöddu augað og voru nóg til þess að jafna metin fyrir Veszprém áður en flautað var til hálfleiks en þá var staðan jöfn, 11:11.

Paris SG hélt áfram frumkvæði í síðari hálfleik og náði einu sinni þriggja marka forystu. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 22:22, og svo virtist sem leikmenn væru að sækja í sig veðrið en vörn þeirra var ekki eins og best var á kosið og markvarslan var í lágmarki. Engu máli skipti þótt Mirko Ailinovic skipti við Roland Mikler. Hinn síðarnefndi kom aftur í markið rúmum fimm mínútum fyrir leikslok og varði vítakast frá Mikkel Hansen þegar fjórar mínútur voru eftir og staðan var 26:25 fyrir PSG. Aron skaut fram hjá markinu þegar 2 mínútur og 40 sekúndur voru eftir. Nikoal Karabatic jók muninn í tvö mörk í kjölfarið, 27:25, þegar tvær mínútur lifðu af viðureigninni. Lazlo Nágy minnkaði enn muninn í eitt mark þegar half önnur mínúta var eftir, 27:26, og Mikler varði loks skot í kjölfarið. Veszprém fékk sókn á síðustu mínútu til að jafna metin. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst Aroni og félögum ekki að jafna metin. Þeim tókst ekki að brjóta á bak aftur öflugan varnarmúr franska liðsins.

Aron Pálmarsson lagði nánast upp hverja sókn Veszprém í leiknum og var svo sannarlega heilinn á bak við öflugan sóknarleik liðsins. Hann deildi út stoðsendingum á samherja sína eins og konfektmolum á aðfangadagskvöld. Aron skoraði aðeins eitt mark. Það kom leikmönnum Veszprém í koll hversu illa þeir fóru með mörg þeirra færa sem Aron bjó til fyrir þá.

Daninn Mikkel Hansen og Þjóðverjinn Uwe Gensheimer skoruðu sjö mörk hvor fyrir Paris SG og voru þeir markahæstir.  Lazlo Nágy skoraði sex mörk fyrir Veszprém. Næstir komu Marguc Kasper og Dragan Gajic með fimm mörk hvor, sá síðarnefndi var með fullkomna nýtingu í vítaköstum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert