Allt í einu orðinn gamli maðurinn

Gunnar Steinn Jónsson á æfingu landsliðsins í dag.
Gunnar Steinn Jónsson á æfingu landsliðsins í dag. mbl.is/Golli

Þetta er flott, við erum búnir að vera að æfa taktík og það eru margir nýir hérna sem við þurfum að koma inn í þetta á stuttum tíma. Það var gaman að koma hérna og allt í einu er maður orðinn gamli maðurinn,“ sagði Gunnar Steinn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta, léttur á því er mbl.is spjallaði við hann á landsliðsæfingu í Valshöllinni í dag. 

Nokkrir nýliðar eru í landsliðshópnum sem keppir á fjögurra liða æfingamóti í Noregi ásamt Svíþjóð, Noregi og Póllandi. Í framhaldi af því leikur Ísland lokaleiki sína í undankeppni Evrópumótsins, gegn Tékklandi og Úkraínu.

„Þetta eru spennandi strákar sem eru allir mjög sprækir, það kom mér á óvart. Það er frábært að fá svona aukaverkefni. Fyrir mig er það t.d mjög gott þar sem ég hef ekki alltaf verið í stóru hlutverki og verið meira í að leysa af. Núna fær ég þrjá leiki til að sýna mig smá og það er rosalega mikilvægt fyrir landsliðið að fá svona verkefni til að koma nýjum mönnum í þetta.“ 

Gunnar varð Svíþjóðarmeistari með Kristianstad á leiktíðinni, ásamt þeim Ólafi Andrési Guðmundssyni og Arnari Frey Arnarssyni.

„Þetta er búið að vera frábært tímabil, við vorum öflugir í Meistaradeildinni þar sem við unnum Kielce heima og Celje úti á meðan við stóðum vel í þessum stóru liðum. Við unnum svo deildina nokkuð örugglega. Við erum með öflugasta liðið og Kristianstad er góður staður til að vera á. Það er full höll á öllum leikjum og það er frábært að spila hérna.“

„Að spila í sænsku deildinni og svo Meistaradeildinni er ekki sama íþróttin. Þetta er mjög góð deild t.d. fyrir Arnar Frey, hann er búinn að taka þvílíkum framförum á einu ári. Kristianstad er eini alvöruklúbburinn í Svíþjóð og ég á eitt ár eftir af samningnum mínum. Mér og fjölskyldu líður vel, svo það gæti verið að ég verði áfram,“ sagði Gunnar Steinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert