Birna Berg spilar með nýju liði í Danmörku

Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Birna Berg Haraldsdóttir er gengin í raðir danska handknattleiksliðsins Aarhus United sem tekur sæti SK Aarhus í dönsku úrvalsdeildinni.

Birna Berg kemur til danska liðsins frá norska úrvalsdeildarliðinu Glassverket sem hún gekk til liðs við í fyrrasumar og lék með því í Meistaradeildinni á nýafstöðnu tímabili. Í mars ákvað stjórn norska liðsins að ekki væri grundvöllur fyrir rekstri félagsins í núverandi mynd og voru allir leikmenn liðsins leystir undan samningi við liðið eftir tímabilið.

SK Aarhus er nýtt félag og liðið búið að tryggja sér þjónustu sextán leikmanna og er Birna Berg ein þeirra.

Birna er 24 ára gömul örvhent skytta sem er uppalinn hjá FH. Hún varð Íslandsmeistari með Fram árið 2013 en fór þaðan til sænska liðsins Sävehof sem hún lék með í tvö ár. Þá lék hún með Molde í Noregi um hríð og fór þaðan til Glassverket á síðasta sumri eftir að hafa verið nærri ár frá keppni eftir að hafa slitið krossband í landsleik 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert