Íslenska landsliðið í handknattleik vann pólska landsliðið með þriggja marka mun, 24:21, á fjögurra þjóða móti í Elverum í Noregi í dag. Ísland var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:12.
Íslenska liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Pólverjar, sem töpuðu fyrir Svíum í gær með sex marka mun, komust ekki einu sinni yfir í viðureigninni í dag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk og var markahæstur í íslenska liðinu. Tandri Már Konráðsson var næstur með fimm mörk. Sigvaldi Guðjónsson, Ólafur Andrés Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og Gunnar Steinn Jónsson skoruðu tvö mörk hver. Sigvaldi var að leika sinn fyrsta A-landsleik að þessu sinni. Arnar Freyr Ársælsson, sem einnig var að leika sinn fyrsta landsleik skoraði einu sinni eins og Atli Ævar Ingólfsson, Vignir Stefánsson og Geir Guðmundsson.
Ágúst Elí Björgvinsson lék einnig sinn fyrsta A-landsleik í dag.
Þetta var annar leikur íslenska landsliðsins á mótinu en í gær tapaðist viðureignin við Norðmenn með sex marka mun. Síðasti leikurinn verður við Kristján Andrésson og lærisveina hans í sænska landsliðinu á sunnudaginn.