Jafntefli gegn Svíum í lokaleiknum

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur í dag.
Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur í dag. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í handbolta gerði 23:23 jafntefli við Svíþjóð í lokaleik sínum á fjögurra þjóða móti í El­ver­um í Nor­egi í dag. Íslenska liðið var 23:21 yfir þegar skammt var eftir en Svíar skoruðu tvö síðustu mörkin. Kristján Andrésson er þjálfari sænska liðsins. 

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum. Staðan í hálfleik var 13:12, Svíþjóð í vil.

Ólafur Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu með fimm mörk, Ómar Ingi Magnússon gerði fjögur og Geir Guðmundsson skoraði þrjú mörk. Gunnar Steinn Jónsson, Atli Ævar Ingólfsson og Vignir Stefánsson komu þar á eftir með tvö mörk og Sigvaldi Guðjónsson, Arnar Freyr Arnarson, Tandri Már Konráðsson, Janus Daði Smárason og Arnar Freyr Ársælsson skoruðu eitt mark hver. 

Jusef Pujol var markahæstur hjá Svíum með fjögur mörk og fékk hann tækifæri til að tryggja Svíum sigur í blálokin en skot hans fór í stöng.

Íslenska liðið hafði unnið Pólverja en tapað fyrir Norðmönnum í tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka