Skotnýtingin alveg skelfilega slök

Ólafur Andrés Guðmundsson til varnar í leiknum í Brno í …
Ólafur Andrés Guðmundsson til varnar í leiknum í Brno í kvöld. Ljósmynd/Ivo Dudek/chf.cz

„Fyrst og síðast þá var spilamennskan hjá okkur alls ekki nægjanlega góð, ekki síst í sóknarleiknum,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir þriggja marka tapið fyrir Tékkum í Brno í kvöld í undankeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik, 27:24.

„Það vantaði takt í sóknarleik okkar auk þess sem við vorum oft alltof bráðir á okkur þótt vandlega hafi verið brýnt fyrir mönnum að gefa sér tíma, hafa sendingarnar fleiri en færri og ná að hreyfa stóra varnarmenn Tékka sem mest,“ sagði Geir og bætti við að fleiru hefði verið ábótavant, m.a. hafi markvarslan verið óviðundandi fyrstu 20 mínútur leiksins.  „Ég hefði kannski mátt bregðast fyrr við með því að skipta Aroni Rafni inn á leikvöllinn.“

Geir segir meðal þess jákvæða hafi verið kraftmikil innkoma Janusar Daða í síðari hálfleik og góður leikur „þristanna“ í miðri vörninni, Bjarka Más Gunnarssonar og Ólafs Andrésar Guðmundssonar. „Það tekur á að leika fimm einn vörn nánast frá upphafi eins og þeir gerðu.  Tæknileg mistök er ekki nema sjö eða átta allan leikinn sem er mjög gott en því miður þá var skotnýtingin alveg hreint skelfilega slök. Hún var ekki upp á marga fiska. Þegar öllu er á botninn hvolft þá liggur kannski ástæða tapsins þar, fyrst og síðast,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert