Fjölnir fær góðan liðsstyrk

Sigfús Páll Sigfússon verður í Fjölnisbúningnum í vetur.
Sigfús Páll Sigfússon verður í Fjölnisbúningnum í vetur. Ljósmynd/Fjölnir

Handknattleiksdeild Fjölnis hefur samið við leikstjórnandann Sigfús Pál Sigfússon, fyrrverandi Íslandsmeistara og landsliðsmann, um að leika með liðinu næstu tvö árin.

Sigfús er 31 árs gamall. Hann varð Íslandsmeistari með Fram árið 2006 og útnefndur besti sóknarmaður íslensku úrvalsdeildarinnar sama ár, sem og efnilegasti leikmaðurinn. Sigfús fór svo yfir til Vals og varð meðal annars bikarmeistari með liðinu árin 2008 og 2009, en sneri svo aftur til Fram og varð Íslandsmeistari í annað sinn árið 2013.

Sigfús fór svo til Japan sumarið 2014 og lék þar með liði Wakunaga í Hírósíma, en þess má geta að móðir hans er japönsk. Hann sneri aftur til Íslands vorið 2016 en hafði þá glímt við erfið veikindi sem héldu honum utan handknattleiksvallarins, samkvæmt fréttatilkynningu Fjölnis.

Sigfús var í vetur aðstoðarþjálfari Fjölnis og átti sinn þátt í að koma liðinu upp í Olís-deildina, en nú er orðið ljóst að hann mun spila með liðinu næsta vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert