Valgerður snýr aftur heim

Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir í leik með HK gegn Fram.
Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir í leik með HK gegn Fram. mbl.is/Golli

Handknattleikskonan Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir er gengin til liðs við HK á nýjan leik eftir tveggja ára dvöl í Svíþjóð og mun semja við Kópavogsfélagið til næstu tveggja ára. Þetta kemur fram á Facebook-síðu HK.

Valgerður, sem er 25 ára gömul, lék með HK frá unga aldri og í mörg ár með meistaraflokki félagsins áður en hún fór til Svíþjóðar í mastersnám. Hún er að flytja heim á ný og tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Síðast þegar Valgerður lék með HK, tímabilið 2014-15, var hún næstmarkahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildinni með 59 mörk í 19 leikjum. HK leikur nú í 1. deild og endaði þar í fjórða sæti í vetur en féll út gegn Selfossi í umspili um sæti í úrvalsdeildinni.

Þá er móðir Valgerðar, Hafdís Guðjónsdóttir, komin inn í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna hjá HK en Hafdís hefur þjálfað hjá félaginu, hina ýmsu flokka, undanfarin fjórtán ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert