Áfram á sigurbraut í Svíþjóð

U17 ára piltarnir hafa staðið sig afar vel á Opna …
U17 ára piltarnir hafa staðið sig afar vel á Opna Evrópumótinu í handknattleik. Hér hita þeir upp fyrir sigurleikinn gegn Tékkum í morgun. Ljósmynd/Facebook HSÍ

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, heldur áfram á sigurbraut á Opna Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Partille í Svíþjóð. Í morgun vann íslenska liðið þriðja leik sinn er það skellti Tékkum með fimm marka mun, 22:17. 

Íslenska liðið var þegar öruggt um sæti í átta liða úrslitum fyrir sigurinn í morgun en hann treysti enn betur stöðu liðsins í mótinu. Milliriðlakeppnin hefst á morgun en það verður ekki ljóst fyrr en í kvöld hver verður andstæðingur Íslands. 

Illa gekk að skora á fyrstu mínútum leiksins í morgun en fljótlega náðu íslensku strákarnir undirtökunum og voru yfirleitt á undan að skora. Staðan í hálfleik var 11:10 Íslandi í vil. 

Í síðari hálfleik lentu Tékkar í miklum vandræðum með sterka 5/1 vörn íslenska liðsins og náðu strákarnir okkar fljótlega að byggja upp fimm marka forystu. Tékkarnir gátu lítið ógnað og svo fór að Ísland vann öruggan sigur, 22:17.

Markaskorarar Ísland í leiknum:
Davíð Elí Heimisson 5, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 5, Blær Hinriksson 4, Einar Örn Sindrason 3, Magnús Axelsson 1, Hrannar Ingi Jóhannsson 1, Ólafur Brim Stefánsson 1, Ívar Logi Styrmisson 1, Stiven Tobar Valencia 1.

Sigurður Dan Óskarsson varði 8 skot og Björgvin Franz Björgvinsson 1 skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert