Norsku meistararnir vildu bræðurna

Orri Freyr Gíslason, númer 3, og Ýmir Örn Gíslason, 33, …
Orri Freyr Gíslason, númer 3, og Ýmir Örn Gíslason, 33, voru undir smásjá norsku meistaranna Elverum. mbl.is/Árni Sæberg

Norska meistaraliðið Elverum vildi fá bræðurna Orra Frey og Ými Örn til liðs við sig á dögunum. Eftir nokkra umhugsun svöruðu þeir bræður félaginu neitandi. Í kjölfarið skrifaði Orri Freyr undir nýjan tveggja ára samning við Hlíðarendaliðið.

Orri Freyr var öxullinn í vörn Íslands- og bikarmeistara Vals á síðustu leiktíð auk þess sem liðið komst í undanúrslit Áskorendakeppni Evrópu. Ýmir Örn, sem varð tvítugur á dögunum, vakti mikla athygli og lék m.a. þess vegna sína fyrstu A-landsleiki í síðasta mánuði.

„Mér fannst þetta spennandi,“ sagði Orri Freyr í samtali við mbl.is. „Ég fékk símtal þar sem spurt var hvort við hefðum áhuga á að ræða við forráðamenn Elverum. Við bræður veltum vöngum yfir þessu um stund en niðurstaðan varð sú að það væru ekki allir klárir í þetta. Þar með varð ekkert úr einu né neinu,“ sagði Orri Freyr enn fremur.

Orri Freyr var um nokkurra mánaða skeið hjá Viborg í Danmörku fyrir nokkrum árum. „Ég tel þann tíma ekki með. En mig langar að spreyta mig hjá liði utan Íslands en geri mér vel grein fyrir að ég fer ekki í stærstu klúbbana í heiminum ef til kemur einhvern tímann í framtíðinni,“ sagði Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert