„Vonbrigði og hálfgert sjokk“

Ólafur Stefánsson, annar af þjálfurum íslenska landsliðsins, ræðir við sína …
Ólafur Stefánsson, annar af þjálfurum íslenska landsliðsins, ræðir við sína menn. Ljósmynd/IHF

„Þessi úrslit voru vitaskuld vonbrigði og hálfgert sjokk enda ætluðum við okkur lengra en þetta í mótinu,“ sagði Ólafur Stefánsson, annar af þjálfurum U21 árs landsliðs karla í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir tap íslenska liðsins gegn Túnisbúum, 28:27, í 16-liða úrslitunum í Alsír í dag.

„Þetta var gott lið sem við mættum og við undirbjuggum okkur undir mjög erfiðan leik eins og reyndin varð. Þetta var leikur í járnum allan tímann en í þau skipti sem við náðum að komast tveimur mörkum yfir þá beið maður alltaf eftir því að við myndum slíta þá frá okkur en við náðum því ekki því miður,“ sagði Ólafur Stefánsson.

Spurður hvað honum fundist helst fara úrskeiðis hjá sínum mönnum sagði Ólafur:

„Ég þarf nú bara að skoða leikinn aftur áður en ég svara því en það voru allir mjög vel stemmdir fyrir leikinn, leikmenn og þjálfarar. Það voru fullt af litlum atriðum sem fóru aflaga í okkar leik. Mér fannst við vera að ná að hafa Túnisbúana undir lokin en þeir voru ólseigir og náðu einhvern veginn alltaf að smeygja sér í gegnum vörnina okkar. Mér fannst sóknarleikurinn nokkuð góður af okkar hálfu,“ sagði Ólafur.

„Það eru strákar í þessu liði sem eiga fullt erindi í að hjálpa A-landsliðinu í framtíðinni og komast á hærra stig en sú niðurstaða að við séum úr leik er okkur mikil vonbrigði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert