Við ætlum að berjast um alla titla

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er frábært að ná í tvö stig og ég held við höfum bara spilað mjög vel,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, við mbl.is eftir sigur á Selfossi 29:26 í fyrsta leik Olís-deildar karla í handknattleik þetta tímabilið.

Það var fyrst og fremst sterkur fyrri hálfleikur sem skóp sigur Stjörnunnar.

„Já klárlega, sex marka forskot í hálfleik var ekki verra. En þetta eru 60 mínútur og við vorum frábærir í fyrri hálfleik og síðasta korterið líka og það skilaði þessu,“ sagði Einar, en Selfoss skoraði fimm mörk í röð í byrjun síðari hálfleiks og kom sér aftur inn í leikinn. Fór þá um Einar?

„Já og nei. Það voru ýmis smáatriði sem við þurftum að skerpa á og við gerðum það. En þetta Selfoss-lið er virkilega gott og það hefði svo sem allt getað gerst, en við kláruðum þetta og ég er glaður með það,“ sagði Einar.

Stjörnunni er spáð baráttu um miðja deild á tímabilinu en Einar stefnir hærra.

„Maður er búinn að heyra alls konar tölur, en ég hef sagt að við ætlum að vera í baráttunni um alla titla í vetur. Það þarf samt margt að ganga upp og það þarf að eiga sér stað mikil og góð vinna, en ef við leggjumst allir á eitt þá held ég að við getum uppskorið eitthvað mjög gott,“ sagði Einar og er ánægður með það lið sem hann hefur úr að spila.

„Ég vona að menn hafi séð það í kvöld að við erum komnir til þess að taka þátt í þessu og ég held við höfum gert nokkuð góða hluti. Það eru smá meiðsli og veikindi hjá okkur svo það vantaði eiginlega bara alla hornamennina okkar í dag og við bregðumst við því,“ sagði Einar en nánast hans síðasti hornamaður Hjálmtýr Alfreðsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu.

„Ég held alveg örugglega að hann hafi farið úr axlarlið, en það verður bara að koma í ljós. Hann fer væntanlega í frekari skoðun á morgun,“ sagði Einar Jónsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert