Misjafnt gengi Íslendingaliðanna

Arnar Freyr Arnarsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í handbolta.
Arnar Freyr Arnarsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í handbolta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensku leikmennirnir sem léku með liðum sínum í fyrstu umferð í Meistaradeild karla í handbolta í dag höfðu fremur hægt um sig. Kristianstad var eina Íslendingaliðið sem náði í stig í leikjum dagsins en liðið gerði jafntefli á heimavelli gegn Zagreb, 28:28.

Arnar Freyr Arnarsson var eini íslenski leikmaður liðsins sem komst á blað í leiknum, en hann skoraði eitt mark. Gunnar Steinn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson létu hins vegar ekki að sér kveða fyrir Kristianstad. 

Aalborg, sem leikur undir stjórn Arons Kristjánssonar, voru klaufar að hafa ekki betur gegn Flensburg. Aalborg var fjórum mörkum yfir um miðbik seinni hálfleiks, en þá tók Flensburg á sig rögg og fór að lokum með sigur af hólmi. Lokatölur í leiknum urðu 30:27 Flensburg í vil.

Janus Daði Smárason lagði eitt mark í púkkið fyrir Aalborg, en Arnór Atlason náði hins vegar ekki að skora fyrir liðið. 

Þráinn Orri Jónsson skoraði eitt mark fyrir Elverum sem tapaði 36:30 gegn Kadetten Schaffhausen. Aron Pálmarsson var ekki í leikmannahópi Veszprém sem vann öruggan 39:31-sigur gegn Celje Lasko. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert